Skólanámskrá 2024-2025

Skólanámskrá Tónlistarskóla A.-Húnavatnssýlu 2024-2025

Formáli

Hér gefur að líta skólanámskrá Tónlistarskóla A.-Húnavatnssýslu. Í henni er leitast við að gefa góða heildarmynd af skipulagi náms og kennslu skólans. Tónlistin er óaðskiljanlegur hluti af menningararfi þjóða og á tónlistarnám að vekja ánægju og örva nemendur til að iðka tónlist og njóta hennar. Til að svo sé er mikilvægt að nemendur búi við jákvætt viðhorf til tónlistarnámsins. Hljóðfæra- og söngnám byggist að miklu leiti á reglubundinni þjálfun og er því að verulegu leyti heimanám. Án markvissra æfinga verður árangur rýr. 

Námsframboð

Boðið er upp á kennslu á blokkflautu, píanó, tré- og málmblásturshljóðfæri, gítar, bassa, hljómborð og trommur. Þá er boðið upp á kennslu í söng.
Kennd er tónfræði fyrir þá nemendur sem lokið hafa a.m.k. 1. stigi.

Hlutverk og markmið

Í Aðalnámskrá tónlistarskólanna kemur fram að tónlistarskóli skuli vera opinn fyrir alla og sinni almennu tónlistaruppeldi. Tónlistarskólinn þarf því að uppfylla mismunandi kröfur, vera fyrir nemendur sem vilja læra einungis sér til skemmtunar og fyrir nemendur sem vilja undirbúa sig fyrir frekara tónlistarnám. Þá kemur fram að tónlistarnám þjálfi nemendur í öguðum vinnubrögðum, bæti sjálfsímynd og árangur í almennu námi. Hlutverk tónlistarskóla er að stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á hana og njóta hennar. Einnig að búa nemendur undir að geta iðkað tónlist upp á eigin spýtur og að stuðla að auknu tónlistarlífi í héraðinu.

Starfsemi skólans byggist meðal annars á þeim grunni að markvisst tónlistarnám stuðli að auknum þroska nemenda og eru markmið skólans að nemendur öðlist lifandi áhuga á tónlist og tónlistariðkun. Að nemendur læri að njóta tónlistar og upplifa hana bæði sem þátttakendur og hlustendur. Að námið efli sjálfsmynd og einbeitingarhæfni nemendans og geri hann hæfari til að taka þátt í hvers konar skapandi starfi, hópstarfi eða einstaklingsvinnu.

Skipulag og kennsluhættir

Nám í tónlistarskólum skiptist í þrjá megináfanga: grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Lengd námsáfanga miðast m.a. við kennslustundafjölda samkvæmt 1. grein laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985.

Nemendur í heilu námi fá 1/2 klst. tvisvar í viku hjá einkakennara og auk þess er boðið upp á tónfræðitíma fyrir þá sem hafa lokið stigsprófi. Nemendur sem eru í hálfu námi fá 1/2 klst. einu sinni í viku hjá einkakennara. Söngnemendur á aldrinum 6-9 ára eru tveir eða fleiri saman í 30 mín. einu sinni í viku.

Skólinn starfar á tveimur stöðum, á Blönduósi og á Skagaströnd. Á Blönduósi fer kennsla fram í húsnæði tónlistarskólans að Húnabraut 26 og í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi. Á Skagaströnd fer kennsla fram í húsnæði tónlistarskólans að Bogabraut 10.
Samvinna milli tónlistarskólans og grunnskólanna tveggja, Höfðaskóla og Húnaskóla, er í góðum farvegi og í stöðugri þróun. 

Áfangar og próf

Stigspróf eru framkvæmd samkvæmt markmiðum skólans og er ætlað að brúa leiðina að áfangaprófi og til að meta stöðu nemenda. Ekki er skylda að nemendur þreyti próf.

Áfangapróf eru framkvæmd samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla og skiptast í grunn-, mið- og framhaldsnám. Lengd námstíma innan hvers áfanga er mismunandi og ræðst af ástundun, getu og þroska hvers einstaklings. Nemendur hefja tónlistarnám á ýmsum aldri og námshraði getur verið mismunandi. Lok náms í tónlistarskólum er því ekki unnt að binda við tiltekinn aldur. Kennari metur hvort og hvenær nemandi þreytir áfangapróf. Þeim er ætlað að tryggja ákveðnar lágmarkskröfur, festu og aðhald í námi. Ljúka þarf verklegu prófi og tónfræðagreinum hvers áfangaprófs áður en heimilt er að þreyta það næsta. Til þess ljúka framhaldsprófi þarf nemandi auk þess að halda sjálfstæða tónleika.

Námsmat

Allir nemendur fá skriflega umsögn að vori. Til grundvallar umsagnar um nemanda eru frammistaða hans í tímum, ástundun og yfirferð námsefnis. Prófskírteini eru veitt öllum sem taka stigs- og áfangapróf. Á skírteininu er að finna einkunn og umsögn prófdómara um frammistöðu á prófinu. Skírteini eru afhent við skólaslit.

Tónleikar og tónfundir

Reglulegur flutningur tónlistar á tónleikum og tónfundum er mikilvæg reynsla fyrir nemendur. Gert er ráð fyrir að allir nemendur komi fram á vegum skólans, misjafnlega oft. Haldnir eru á hverju ári jóla- og vortónleikar, söng- og hljóðfæranemenda og einnig kemur hluti nemenda kemur fram á skólaslitum skólans. Þá koma nemendur fram við ýmis önnur tilfallandi tækifæri s.s. á menningarviðburðum innan sýslunnar og á Nótunni, uppskeruhátíð tónlistarskólanna. 

Innritun og skólagjöld

Nýir nemendur eru skráðir í skólann að vori og er innskráning auglýst sérstaklega. Skráning fer fram á vefsíðu skólans, www.tonhun.is. Skrifstofa Húnabyggðar sér um innheimtu skólagjalda. 

Hagnýtar upplýsingar

Forföll skal tilkynna tímanlega til viðkomandi kennara eða á netfang skólans tonhun@tonhun.is.

Samvinna við foreldra er mjög mikilvæg. Á haustönn er foreldravika þar sem foreldrum er boðið að fylgjast með kennslustund. Þess utan er foreldrum og forráðamönnum alltaf velkomið að koma í heimsókn. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við kennara hvenær sem þurfa þykir og fylgjast vel með netpóstum sem koma frá kennurum og skólastjóra. Skólinn notar Visku sem gerir kennurum m.a. kleift að halda utan um mætingar nemenda sinna á einfaldan hátt og hægt er að fá mætingayfirlit sent í tölvupósti. 

Lögbundin frí við skólann eru eftirfarandi: jólafrí og páskafrí skv. skóladagatali, uppstigningardagur, sumardagurinn fyrsti, 1. maí og annar í hvítasunnu. Hefð er fyrir vetrarfríi á bolludag, sprengidag og öskudag.

Hljóðfæraleiga og nótnabækur  

Hljóðfæri eru leigð út gegn gjaldi, gjaldskrá er á heimasíðu skólans. Nótnabækur vegna hljóðfæra- og tónfræðanáms þurfa nemendur að nánast öllu leiti að kaupa sjálfir. Nauðsynlegt er að nemendur eignist sitt eigið nótnasafn.

Rekstur og fjármögnun 

Tónlistarskóli A.-Húnavatnssýslu er rekinn af tveimur sveitarfélögum: Húnabyggð og Skagaströnd. Umsýsla skólans fer í gegnum skrifstofu Húnabyggðar. Skólinn heyrir undir skólanefnd sem er skipuð af fulltrúum sveitarfélaganna. Aðalmenn eru Jón Árni Magnússon formaður, Elín Ósk Gísladóttir, Ástrós Elísdóttir og Hafrún Ósk Hallgrímsdóttir. Stjórnarformaður skólanefndar er Pétur Arason.